Saga hússins

 
12065563_896485213722241_1948829364505418334_n.jpg

Það var árið 1925 sem bíóstjórinn Peter Petersen bað byggingameistarann Einar Erlendsson að gera uppdrátt að nýju bíóhúsi en Peter, sem gekk undir nafninu Bíópetersen hafði rekið kvikmyndahús í Fjalarkettinum við Aðalstræti síðan 1907. Það húsnæði var þá orðið of lítið fyrir starfsemina, enda vaxandi samkeppni í bíógeiranum eftir að Nýja bíó flutti í nýtt kvikmyndahús árið 1920, en tilkoma Nýja bíós varð til þess að Bíópetersen fór að auglýsa sinn rekstur undir nafninu Gamla bíó.
Þann 13. september 1926 var hafist handa við byggingu nýs bíóhúss við Ingólfsstræti 2a og fyrsta sýningin í nýjum húsakynnum Gamla bíós, Ben Hur, var frumsýnd 2. ágúst 1927.


1.jpg

Einar Erlendsson, byggingameistari, hannaði húsið í hreinum nýklassískum stíl. Á uppdrætti Einars af húsinu sést að hann hefur einnig gert skissur að myndunum sem málaðar voru uppi við loft í anddyri hússins. Þar blandar hann á vissan hátt saman alþjóðlegum og íslenskum einkennum og óhætt er að segja að hús Petersens hafi á þeim tíma verið veglegasta kvikmynda- og samkomuhús á landinu.

Gamla bíó er ein af merkustu byggingum í Reykjavík frá tímabili steinsteypuklassíkur og eitt helsta verk Einars Erlendssonar með listrænu tilliti. Framhlið hússins og almenningsrými hafa varðveist í upprunalegri mynd þó svo salarkynnin hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum árin.

Petersen seldi húsið hlutafélaginu Gamla bíó hf. árið 1939 en það félag starfrækti kvikmyndahúsið til ársins1981 þegar Íslenska óperan eignaðist það og hóf starfsemi sína þar árið eftir.

Fyrsta óperuuppfæraslan, Sígaunabaróninn eftir Jóhann Strauss, var frumsýnd í Gamla bíó 9. janúar 1982 og allt frá því hélt Óperan úti öflugu tónlistarlífi í húsinu til ársins 2011 þegar hún flutti sig yfir í tónlistarhúsið Hörpu.


Screenshot 2019-08-06 at 14.49.52.png

Með umfangsmiklum framkvæmdum á árunum 2014-2016 var öll aðstaða í húsinu bætt til muna svo nú getur Gamla bíó skipað sér sess á meðal fremstu viðburðahúsa á Íslandi og Íslendingar allir og gestir þeirra notið þessarar sögufrægu og fallegu byggingar í hjarta miðborgarinnar um ókomna tíð.