Þeytið þokulúðra og ræsið konfettikanónurnar því nú verður haldið ball. Gleymið gamlárskvöldi því það veldur alltaf vonbrigðum. Komið heldur og dansið af ykkur laufabrauðið á Síðasta séns með FM Belfast í Gamla bíói þann 30. desember næstkomandi. Eftir tuttugu ár munuð þið horfa djúpt í augu hvors annars og spyrja: Manstu hvað var gaman á FM Belfast tónleikunum 30. desember 2023? Svarið liggur í augum uppi: Já, hvort ég man. Ógleymanleg stund.
Síðast seldist upp á fjörutíu mínútum svo ykkur er ekki til setunnar boðið. Sláið eign ykkar á miða og ærumst af gleði. Við hlökkum til að sjá ykkur